Þær eru oft skemmtilegar gömlu myndirnar sem birtasta á FB. Þessi vakti athygli mína. Bandarískir dátar að taka við kassa af Coca Cola við bækistöðvar sínar, Camp Curtis, við Sogavoginn. Það er Sverrir Þórólfsson sem setur inn myndina með orðunum: „Kaninn kom til landsins 1941 Coca Cola ári seinna sumarið 1942.“ Myndin er merkt Samuel Kadorian.
Oftar en ekki verða talsverðar umræður í athugasemdakerfinu við birtingu þessara gömlu mynda og svo varð einnig í þetta skiptið. Hvar er jú þessi mynd tekin? Og þá er horft í bakgrunninn til að komast að niðurstöðu. Baldur J. Baldursson setti inn myndir og fann út að þetta væri við Sogavoginn. Það voru húsin við þakbrún braggans sem komu honum á sporið.
Fróðlegt og skemmtilegt. Veröld sem var!
Baldur J. Baldursson setti þessa inn í athugasemd. „Horft til vesturs eftir Sogavegi. Býlin Réttarholt fjær (sama og í bakgrunni upphafsmyndar þessa spjallþráðar) og Melbær nær.“
Baldur bætti svo þessari við með orðunum: „Að líkindum er það húsið Hjalli við Sogaveg (112) sem sér í vinstra megin við býlið Réttarholt (við þakbrún braggans). Hjalli var fluttur á Stokkseyri og stendur þar enn.“