Það fór allt í háaloft á fundinum í Borgum síðdegis um þéttingu byggðar í Grafarvogi. Grafarvogsbúar tóku svo sannarlega við sér og var metaðsókn á fundinn. Mikill einhugur var á meðal íbúa um að hafna þeim tillögum sem voru kynntar. Guðlaugur Þór spurði fundarmenn hve margir styddu tillögurnar og réttu þrír upp hönd, þar af voru tveir ekki íbúar í Grafarvogi.
Mikil reiði braust út um fyrirkomulag fundarins og missti fundarstjóri öll tök á fundinum. Margir upplifðu yfirgang og frekju af hálfu embættismanna og að fundurinn væri fyrir borgaryfirvöld en ekki fyrir íbúa Grafarvogs þar sem fyrirkomulag fundarins var með þeim hætti að embættismenn kynntu tillögurnar en íbúar fengju ekki að spyrja fyrir fullum sal og sömuleiðis fá svör á opnum fundinum. Þetta fór mjög illa í fólk og gaf tóninn.
Jafnframt upplifði fólk sem fundurinn væri hálfgerð sýndarmennska og að verið væri að keyra tillögurnar í gegn hvað sem tautaði og raulaði undir því yfirskini að þetta væru fyrst og fremst drög - sem hægt væri að gera athugasemdir við þau - en í raun væri borgaryfirvöld búin að ákveða þetta í einu og öllu - enda kom ítrekað fram á fundinum að til stæði að auglýsa Aðalskipulagið í maí og staðfesta það í júlí.
Þetta reyndist erfiður fundur fyrir fundarstjórann. Hann missti öll tök á fundinum.
TIL HVERS HALDIÐ ÞIÐ AÐ VIÐ SÉUM KOMIN?
Þetta fyrirkomulag varð til þess að allt fór í háaloft því embættismenn borgarinnar voru ekki á þeim buxunum að gefa eftir og breyta fyrirkomulagi fundarins þrátt fyrir kröfu fundarmanna þar um. Í mikilli reiði var púað og meðal annars spurt: Til hvers haldið þið að við séum komin hingað? Í raun voru fundarmenn mættir til að mómæla tillögunum í heilu lagi og senda þau skýru skilaboð til borgaryfirvalda.
Embættismenn höfðu hugsað fundinn sem almennan kynningarfund í upphafi án spurninga frá íbúunum og eftir þá kynningu myndu íbúarnir skipta sér niður fyrir framan nokkra skjái sem voru dreifðir um salinn og að þar gætu þeir spurt út í sitt hverfi og sína reiti. Miðað við fyrirsjánlega toppmætingu á fundinn var þetta fyrirkomulag illmögulegt. Og á margan hátt sérstakt að halda að mikill hitafundur gæti breyst í einhvers konar pælingar og vangaveltur um einstaka reiti í hverfinu líkt og verið væri að skoða og spekúlera í málverkum í rólegheitum á málverkasýningu.
Þetta var mikill hitafundur og gífurleg óánægja með það fyrirkomulagið að fundarmenn fengju ekki að leggja fram spurningar á fundinum fyrir fullum sal. Hér fékk einn fundarmanna, arkitektinn Aðalsteinn Snorrason arkitekt, að spyrja eftir mikið japl, jaml og fuður - og spurði hann um hljóðmengun, mælingar og viðmið. En fátt var um svör.
MIKIL REIÐI Á FUNDINUM
Fundarmenn voru hins vegar mættir til að spyrja og fá svör við til dæmis áætlunum um umferðarþunga í framtíðinni, rannsóknum og áætlunum um hljóð og hávaða út frá umferðinni, áætlanir um hversu mikið álag yrði á innviði, hvers vegna ekki væri lengur umhyggja fyrir litlum grænum svæðum sem prýddu hverfið, eða nokkrum göngu- og hjólastígum sem verða þéttingunni að bráð -
og við hvaða álagspunkta væri almennt stuðst þegar kæmi að þéttingu byggðarinnar.
Einhverjir höfðu á orði að fundargestir hefðu átt að mótmæla fyrirkomulagi fundarins með fótunum og ganga út - allir sem einn - þegar þeir áttuðu sig á hvernig fundurinn var hugsaður af embættismönnum borgarinnar.
GUÐLAUGUR ÞÓR SPURÐI SALINN
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður og íbúi í Grafarvogi, bað um orðið þegar ljóst var að fundurinn væri í þann mund að leysast upp. Fundarstjóri var alls ekki á því rétta honum hljóðnemann en gaf síðan eftir. Guðlaugur Þór spurði salinn hversu margir styddu þær tillögur sem hefðu verið kynntar á fundinum. Skyndilega varð þetta að óformlegri atkvæðagreiðslu. Þrír réttu upp hönd og studdu tillögurnar og reyndust tveir þeirra ekki búa í Grafarvogi. Klappað var fyrir þessari niðurstöðu!
Salurinn var á því að það ætti að fella þessar tillögur í einu og öllu og virða græn svæði og það andrými sem íbúar hefðu í Grafarvogi - auk þess sem það væri að koma aftan að íbúum að leggja fram drög að breyttu aðalskipulagi í svo grónu hverfi .
ALEXANDRA BRIEM
Alexandra Briem borgarfulltrúi sté þá fram og bað fundarstjóra um orðið og sagði að það kæmi sér á óvart hvernig andinn væri á fundinum og sú mikla andstaða sem væri við tillögurnar. Hún spurði salinn hvort hann vildi engin ný hús á neinum reitum og salurinn svaraði að bragði að hann vildi hafa byggðina óbreytta.
Alexandra sagði síðan: „Það verður tekið fullt tillit til þess sem þið eruð að segja og biðja um!“
Þá vakti sú setning mikla athygli þegar arkitekt borgarinnar, sem kynnti tillögurnar, sagði að gert væri ráð fyrir að einn bíll væri hugsaður á hverja íbúð í Grafarvogi eins og í borginni allri. Það fór ekki vel í mannskapinn að yfirfæra ætti miðbæjarfyrirkomulagið og vitleysuna þar yfir á úthverfin.
Eftir þetta yfirgáfu flestir fundinn en ýmsir nýttu tækifærið og spurðu nánar um þær tillögur sem lagðar voru fram. (Fréttin hefur verið uppfærð). - JGH
Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður fékk orðið eftir nokkra eftirgangssemi. Hann spurði: Hverjir styðjja þessar tillögur og þrír réttu upp hönd. Troðfullur salurinn vildi fella allar þær tillögur sem voru lagðar fram.
Alexandra Briem borgarfulltrúi bað um orðið og sagðist undrandi á þeirri miklu fyrirstöðu sem væri við tillögurnar og sagði síðan: „Það verður tekið fullt tillit til þess sem þið eruð að segja og biðja um!“
New Paragraph