Sannir sigurvegarar: Dagur íþróttamaður Fjölnis og Emilía skákkona Fjölnis

11. febrúar 2025
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
Skáklistin dafnar vel í Grafarvog og setur svip sinn á starf Fjölnis. Og heldur betur því Dagur RagnarssonÍslandsmeistari í atskák 2024 og Skákmeistari Reykjavíkur 2024 var kjörinn íþróttamaður Fjölnis 2024 og hin efnilega skákkona Emilía Embla B. Berglindardóttir var við sama tækifæri valin skákkona Fjölnis. 

Þetta var kunngjört á uppskeruhátíð Fjölnis sem haldin var í Keiluhöllinni í Egilshöll fyrir jól og kemur fram í frétt Skákdeildar Fjölnis á Facebook sem Helgi Árnason, fyrrverandi skólastjóri í Rimaskóla, heldur utan um. Helgi hefur unnið kraftaverk fyrir skáklífið hér í Grafarvogi og fyrir vikið er áhugi á skák mikill og árangurinn eftir því.

Í umsögninni um Dag kemur meðal annars fram að hann hefði byrjað árið 2024 með þátttöku í Meistaramóti Reykjavíkur þar sem hann sigraði mótið með 8 vinninga af 9 mögulegum og hlaut titilinn Skákmeistari Reykjavíkur 2024.

 „Núna í lok ársins varð hann einnig Skákmeistari Garðabæjar. Skáksveit Fjölnis varð Íslandsmeistari skákfélaga árið 2024 í fyrsta sinn á 20 ára afmælisári. Dagur Ragnarsson var einn af lykilmönnum sveitarinnar. Fjölnir vann allar 10 viðureignir Úrvalsdeildar 2023 - 2024 eitthvað sem aldrei hafði áður gerst.

Önnur afrek Dags á sviði skáklistarinnar á árinu 2024 eru sigur á Boðsmóti TR, sigur á maímótaröð TR og TG og nú síðast sigur ásamt 4 öðrum skákmönnum á alþjóðlega skákmótinu „Amsterdam Open A flokki“  í október sl.

Dagur hefur ávallt teflt undir merkjum Skákdeildar Fjölnis og áður með skáksveitum Rimaskóla sem vann NM grunnskólasveita þrívegis á þeim tíma sem Dagur Ragnarsson var í sveitinni.“

Emilía Embla B. Berglindardóttir

Í umsögn um Emilíu Emblu segir meðal annars að hún sé án efa ein efnilegasta skákkona landsins meðal stúlkna í barna-og unglingaflokki. „Á árinu var Emilía Embla ein af fulltrúum Íslands á Norðurlandamóti stúlkna og Evrópumóti ungmenna sem haldið var í Prag í ágúst sl.“

Fram kemur að Emilía Embla sé afar virk og sigursæl skákkona. „Hún hefur verið efst stúlkna á öllum bikarsyrpumótum TR sem hún hefur tekið þátt í. Hún vann fyrsta mótið af fimm fyrirhuguðum bikarsyrpumótum Skáksambandsins í flokki stúlkna í byrjun nóvember sl. og leiðir stúlknasveitir Rimaskóla sem eru Íslandsmeistarar grunnskóla. 

Emilía Embla er fyrirmynd allra þeirra fjölmörgu stúlkna sem sækja skákæfingar Skákdeildar Fjölnis alla fimmtudaga,“ segir í frétt Skákdeildar Fjölnis á Facebook.

Share by: