RÚV fjallar um hitafundinn sl. fimmtudag um skipulagsmál í Grafarvogi og ræðir við Alexöndru Briem borgarfulltrúa þar sem hún segir að andstaðan við tillögurnar á fundinum hafi komið sér á óvart. Hún segir við RÚV að til standi að ná lendingu sem íbúar Grafarvogs geti verið sáttir við. En fólk verði að senda inn athugasemdir.
Á fundinum sjálfum sagði hún raunar í hita leiksins: „Það verður tekið fullt tillit til þess sem þið eruð að segja og biðja um,“ líkt og Grafarvogur.net nefndi í frásögninni af fundinum.
„Já, þetta var það, því miður,“ segir Alexandra við RÚV. Auðvitað var mjög gott að heyra að íbúar í Grafarvogi hafa miklar skoðanir og mikla ástríðu fyrir sínu hverfi. Það var náttúrlega töluvert verið að draga saman áformin miðað við fyrri ábendingar, en við fundum það samt alveg að fólkið sem var þarna, allavega þeir sem töluðu við okkur, þeim fannst ekki nógu mkið gert í að draga úr þessu og vildu ganga enn lengra. Við náttúrlega verðum að reyna að taka tillit til þess og skoða þetta, en á sama tíma erum við líka að meta almennt húsnæðisþörf í Reykjavík þannig að við þurfum að reyna einhvern veginn að reyna að ná einhverri lendingu í þessu sem fólk getur verið sátt við,“ segir Alexandra Briem borgarfulltrúi Pírata.
DÝPRA Á ÓSÆTTINU EN VIRTIST
Hún segir það hafa komið sér aðeins á óvart hversu mikil andstaðan væri enn miðað við hversu mikið hafi verið búið að draga úr þeim hugmyndum sem mættu mestri andspyrnu og mikil vinna hafi verið lögð í að bæta útsýni, útivistarsvæði og fleira.
„Það er kannski dýpra á þessu ósætti en maður hafiði kannski ímyndað sér.“
FÓLK VERÐI AÐ SENDA INN ATHUGASEMDIR
Alexandra segir ennfremur við RÚV að fólk verði að senda inn sínar athugasemdir og skoða þurfi hvort hægt sé að eiga meira og dýpra samtal við íbúa hverfisins. Á fundinum var nefnt að verið væri að koma miðbæjarskipulagi á í úthverfinu, en Alexandra segist algjörlega ósammála því, þarna sé lagðir til reitir sem séu ekki mjög þéttir, há byggð eða hverfiskjarnar.
„Ég myndi ekki segja að þetta sé einhvers konar miðbæjarskipulag, alls ekki, þetta er bara í töluverðu samræmi við þá þéttni sem er í Grafarvogi nú þegar,“ segir Alexandra við RÚV.