Arnar í Flowers var fyrsti íbúinn í nýju hverfi Grafarvogs 1984

6. mars 2025
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button

VIÐTAL: SVAVA JÓNSDÓTTIR

Arnar og fjölskylda voru þau fyrstu sem fluttust í hið nýja hverfi Reykjavíkur, Grafarvog, vorið 1984; í einbýlishús í Foldahverfinu. Við erum að tala um Arnar Sigurbjörnsson tónlistarmann með meiru en hann var goðsögn á meðal poppara á sjöunda og áttunda áratugnum; Addi í Flowers. Þekktastur fyrir að vera einn stofnenda hljómsveitarinnar Flowers og spila með hljómsveitum eins og Brimkló og Ævintýri – þótt sveitirnar séu fleiri þar sem hann hefur staðið í stafni með sólógítarinn. Flowers kepptu við Hljóma á árunum 1967 til 1969 eða þangað til súpergrúppan Trúbrot varð til úr þessum tveimur hljómsveitum.

 

HITAVEITAN EKKI KOMIN FYRSTU MÁNUÐINA

„Húsið og lóðin var fullkláruð en það var ekki komið heitt vatn í hverfið og það kom ekki fyrr en þremur mánuðum seinna og vorum við með brennsluofn til að hita húsið til að byrja með,“ segir Arnar í viðtali við Grafarvogur.net um þessa fyrstu mánuði fjölskyldunnar sem frumbyggjar í Grafarvoginum.

 

Einhverjir segja ef til vill að Geiri bóndi í Gufunesi, Þorgeir Jónsson og fjölskylda, sé sá fyrsti en hann var þekktur bóndi og hestamaður sem bjó um árabil í Gufunesi síðari hluta tuttugustu aldarinnar – en Gufunes telst núna hluti af Grafarvogi eins og við þekkjum hverfið í dag. En við erum að tala um Grafarvog; nýja hverfið. Þess utan er Gufunes gamall landnámsbær þannig að byggð hefur verið um aldir í Gufunesi en Ketill gufa Örlygsson nam fyrstur manna land í Gufunesi og er nesið skírt eftir honum.

 

ÚTIVISTARSVÆÐIN ÞAÐ BESTA VIÐ GRAFARVOG

Arnar býr enn í Grafarvoginum, Foldahverfinu, og segir að útivistarsvæðin séu það besta við Grafarvog.

 

„Það er vogurinn eins og hann leggur sig; ströndin. Það var ekki neitt tré í Grafarvogi þegar ég flutti, nema við sumarbústaði sem voru við voginn, en núna er allt á kafi í trjám. Það er svo gott gróðurland hérna.“

 

Arnar segist fara daglega í gönguferðir – allt árið um kring. „Ég geng í sund og það er kirkja hérna og verslanir og það er allt í göngufæri. Einn mesti kosturinn við Grafarvog er að hér er líka rólegt, lítil umferð og mikið fuglalíf.“

Hljómsveitin Flowers, 1967 til 1969. Frá vinstri: Karl Sighvatsson, Jónas R. Jónsson, Sigurjón Sighvatsson, Gunnar Jökull Hákonarson og Arnar Sigurbjörnsson.

GÖMLU POPPARAÁRIN Í FLOWERS

Um gömlu, góðu popparaárin í Flowers, Ævintýri og Brimkló, segir Arnar að það hafi verið skemmtilegur tími en hugmyndin með Flowers hafi verið að spila soul-tónlist. Spurður um vinsælustu lög Flowers nefnir hann Sverðdansinn, Gluggann og Slappaðu af.

 

„Annars vorum við aðallega „cover band“; við tókum lög sem aðrir höfðu gert fræg. Flowers-ævintýrið endaði eftir tvö ár, var í gangi frá 1967 til 1969, “ segir Arnar sem stofnaði í framhaldinu hljómsveitina Ævintýri ásamt fleirum.

 

GRÍPUR Í GÍTARINN Á HVERJUM DEGI

Hann segist enn grípa í gítarinn á hverjum degi. „Það er ekkert langt síðan ég hætti að spila sjálfur opinberlega. Ég sleppi aldrei gítarnum á meðan puttarnir eru í lagi. Og þeir eru í lagi,“ segir Arnar og brosir.

Arnar Sigurbjörnsson: „Ég gríp í gítarinn á hverjum degi.“ 

GRAFARVOGSHVERFIÐ KOSNINGAMÁL

Þess má geta að í sveitarstjórnarkosningunum 1982 þegar Davíð Oddsson vann borgina með glæsibrag sem oddviti Sjálfstæðisflokksins lagði hann áherslu á það í kosningunum að byggja meðfram ströndinni, brjóta land undir nýtt íbúðahverfi í Reykjavík, Grafarvog. Tekist var á um þetta í kosningum því vinstrimeirihlutinn sem þá var vildi byggja uppi við Rauðavatn og Norðlingaholt. Davíð hamraði á því að það væri sprungusvæði, vann kosningarnar, ströndin varð fyrir valinu – og stórkostleg jarðvegsvinna hófst í Grafarvogi sumarið 1982 til að undirbúa hið nýja hverfi.

 

Og fyrsti íbúarnir voru klárir í hverfið, Arnar og fjölskylda fluttu inn í einbýlishúsið sitt vorið 1984. 

Arnar segir að vinsælustu lög Flowers séu Sverðdansinn, Glugginn og Slappaðu af.

Share by: