Eftir Jón G. Hauksson
•
10. apríl 2025
Við sögðum frá því í gær að útlit væri fyrir að hitametið í apríl frá árinu 1928 myndi líklegast falla. Já, og það gerðist. Hitinn hélst yfir 10°C yfir daginn. Þetta er stórfrétt í heimi veðurmetanna, segir Einar Sveinbjörnsson sem setti inn færslu á FB í gærkvöldi eftir að hafa fylgst með málinu í gærdag. Hér kemur færsla Einars á FB frá því í gærkvöldi. HITAMET! 10 stigin náðust í Reykjavík í dag, 9. apríl. Taldi það ekki líklegt í fyrri skrifum. Meðalhiti átta athugana reyndist vera 10,0°C (kl.00, 03, 06, 09, 12, 15, 18 og 21). Dæguhitinn hefur aldrei náð 10 stigum í Reykjavík svo snemma ársins sem nú. Daglegar mælingar sem ég hef undir höndum eru frá 1901, en vissulega eru til slæðingur eldri mælinga úr Reykjavík. Munaði reyndar litlu 1928 þegar dægurhitinn reiknaðist 9,8°C hinn 3. apríl það ár. En það var víðar sem dægurhitinn náði 10 stigum vestanlands, m.a. í Stykkishólmi og eins í Húsafelli þar sem hann reyndist 10,9°C. Það samsvarar nokkurnveginn meðalhita í júlí! Og auðvitað er þetta stórfrétt og verður enn stærri í augum veðurmetaklúbbsins ef ekki finnst sambærilegur eða hærri hiti í Stykkishólmi, með sína löngu og merkilegu mælaröð, skrifar Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur á FB.