Þögn GR-inga - þeir sömdu við borgina um lóðir á Korpu og Grafarholti árið 2017

1. apríl 2025
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button

Á meðan íbúar í Grafarvogi  hafa undrast á að fyrirhugaðar 515 íbúðir á landi GR við Korpu hafi hvorki verið kynntar né minnst á þær í glærum embættismanna borgarinnar á íbúafundinum í þarsíðustu viku, 20. mars, þá hafa margir spurt sig hvers vegna ekki hafi heyrst hljóð úr horni GR-inga eftir að Þóra Þórsdóttir, íbúi við Starengi, vakti athygli fyrst á málinu og Grafarvogur.net hefur síðan fylgt því eftir enda ekki annað séð en að mikill meirihluti Grafarvogsbúa sé fyrst núna að frétta af Korpuíbúðunum.


Svarið við þögn GR-inga, Golfklúbbs Reykjavíkur, er komið í ljós; þeir sömdu við borgina 7. nóvember 2017 um að afsala sér þessum reitum á Korpu sem og reit í Grafarholtinu, fyrir ofan hringtorgið við Krókhnálsinn á leiðinni upp að klúbbhúsinu, gegn því að fá í staðinn stuðning borgarinnar við breytingar á Grafaholtsvellinum og endurbætur á Básum.


Þetta kemur fram í ágætri athugasemd Einars Karls Friðrikssonar við frétt Grafarvogur.net í gærkvöldi varðandi litabreytingar á 100 íbúða reitnum á Thorsvellinum við Korpu. Einar birtir samninginn - viljayfirlýsingu -  sem Dagur B. Eggertsson gerði við GR-inga.


Tekið skal fram að hugmyndin um að selja þessar lóðir kom fyrst frá GR-ingum sjálfum til að fjármagna framkvæmdir en lóðirnar voru á aðalskipulagi innan marka golfvalla klúbbsins á Korpu og Grafarholti - „á nytjasvæði“ golfklúbsins.


VILJAYFIRLÝSING BORGARINNAR VIÐ GR-INGA 7. NÓV. 2017


„Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi viljayfirlýsingu milli Golfklúbbs Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar um mögulega uppbyggingu á aðstöðu klúbbsins í Grafarholti og á Korpúlfsstöðum. Jafnframt að fela Umhverfis- og skipulagssviði að hefja formlega deiliskipulagsvinnu byggða á fyrirliggjandi hugmyndum um að búa til nýjar lóðir í Grafarholti og á Korpúlfsstöðum.


Greinargerð:

Með erindisbréfi dagsettu 6. október 2016 skipaði borgarstjóri starfshóp um svæði golfklúbbs Reykjavíkur. Starfshópurinn var skipaður á grundvelli erindis klúbbsins um samstarf og styrk til að vinna frekar áætlanir varðandi uppbyggingu klúbbsins.


Eins og fram kemur í viljayfirlýsingunni er gert ráð fyrir því að skipuleggja lóðir annars vegar á Grafarholti við æfingasvæði Bása og hins vegar á Korpúlfsstöðum í framhaldi af Egilshöll.


Hefur skipulagið rýnt þessar hugmyndir og kynnt minnisblað í umhverfis- og skipulagsráði þar sem þessar fyrirhuguðu lóðir eru sýndar ásamt umsögn um hverja lóð. Er gert ráð fyrir því að hluti söluandvirðis þessara lóða standi undir þeirri uppbyggingu sem fyrirhugað er að fara í.“  Undir þetta skrifar Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.


Hugmyndirnar komu upphaflega frá GR-ingum. Svæði 1: Thorsvöllur, tvær brautir.  Svæði 2. Við Barðastaði, 2. holu á Sjónum. Svæði 3: Grafarholtsvöllur við enda Bása við Krókhálsinn. Svæði 4: Við Korpúlfstaðaveg.

Upphaf málsins má rekja til bréfs Golklúbbs Reykjavíkur til Reykjavíkurborgar 2. maí 2016 þar sem óskað var eftir 5 milljóna kr. styrk til að vinna frekari áætlanir um endurbætur á þróttamannvirkjum klúbbsins í Grafarholti.


Um bréf þetta segir: „GR hefur þegar látið fara fram skoðun á mögulegri endurgerð golfvallarins í Grafarholti. Til að fjármagna mögulegar breytingar á vellinum býður klúbburinn fram fjögur svæði til mögulegrar uppbyggingar fyrir atvinnulóðir eða íbúðarhúsalóðir.


Skoðun skipulagsfulltrúa leiddi í ljós að til greina komi að fara í uppbyggingu á þeim svæðum sem GR leggur til, þó þurfi að skoða alla reitina betur í framhaldinu. Þá hefur skrifstofu eigna og atvinnuþróunar verið falið að kanna mögulega sölu Korpúlfsstaða en forsenda þess er ítarleg skoðun á skipulagsbreytingum kringum húsið.


Hinn 1. nóvember 2017 var Áfangaskýrsla starfshóps um svæði Golfklúbbs Reykjavíkur lögð fram. Þar segir meðal annars: „Fyrir liggur umsögn fulltrúa skipulagsins í hópnum sem að kynnt hefur verið í skipulagsráði. Byggt á þessari skýrslu hefur skrifstofa eigna og atvinnuþróunar lagt mat á mögulegar tekjur sem gætu fengist af sölu lóðanna og borið það saman við mögulegan kostnað við uppbyggingu vegna aðstöðu til golfiðkunar.


Á þessu stigi er auðvitað talsverð óvissa í þessum tölum en það er alveg ljóst að ef einungis hluti þeirra lóða sem hugmyndir eru um að búa til þá geta tekjur af því staðið undir allri fjárfestingu í tengslum við uppbyggingu GR.“

Share by: