Jón með eiginkonu sinni Völu Möller á myndinni hér að ofan.
VIÐTAL: SVAVA JÓNSDÓTTIR
Rótarý-dagurinn var í fyrradag, 23. febrúar. Við birtum hér fyrri hluta viðtals Grafarvogur.net við fyrrum Grafarvogsbúann og fyrrum formann Fjölnis til fimmtán ára, Jón Karl Ólafsson, umdæmisstjóra Rótarý á Íslandi. Hann var lengi tengdur flugrekstri, var um árabil yfirmaður Icelandair í Evrópu og síðar framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands , forstjóri Icelandair og síðan Icelandair Group . Þá var hann forstjóri Primera Air og vann síðan um tveggja ára skeið sem framkvæmdastjóri innanlandsflugvalla hjá ISAVIA. Svo sannarlega reynslubolti í atvinnulífinu. Undanfarin ár hefur hann verið sjálfstætt starfandi ráðgjafi meðfram ýmsum verkefnum fyrir Rótarý og þess utan unnið nokkuð fyrir Rotary International.
TÓNLISTIN ER EINS OG GEÐLYF
Jón Karl hefur í gegnum áratugina verið hljómborðsleikari í ýmsum hljómsveitum og hann segir að tónlistin sé eins og geðlyf. Tónlistin hjálpaði honum mikið þegar höggið kom fyrir nokkrum árum en þá greindist Jón Karl með krabbamein. Á meðan á meðferðinni stóð hittist hljómsveitin reglulega og hélt meðal annars tónleika á tímabilinu. Hann lærði ýmislegt af þessari reynslu. „Maður á að njóta á meðan maður getur,“ segir eiginmaðurinn, faðirinn og afinn Jón Karl. Fjölskyldan er það sem skiptir öllu máli og miklu meira en hlutir eins og vinna og veraldleg gæði.
Jón Karl Ólafsson, umdæmissstjóri Rótarý á Íslandi, á spjalli við Ásdísi Erlu Bjarnadóttur, fyrrverandi
umdæmisstjóra Rótarý á Íslandi.
Rótarýdagurinn var í gær þegar Rótarý fagnaði 120 ára afmæli sínu. Yfir 1.100 Rótarý-félagar eru á Íslandi en
1,4 milljónir í heiminum. Það var Bandaríkjamaðurinn Paul Harris sem stofnaði Rótarý. „Rótarý er frábær
félagsskapur, eins og lítill háskóli,“ segir Jón Karl Ólafsson.
Í RÓTARÝKLÚBBI REYKJAVÍKUR
Jón Karl gekk í Rótarýklúbb Reykjavíkur árið 2000 þegar hann flutti heim eftir um fimm ára búsetu í Þýskalandi þar sem hann vann fyrir Icelandair. Um 1,4 milljónir Rótarý-félagar eru víða um heim og rúmlega 1.100 á Íslandi.
„Eitt af meginmarkmiðum Rótarý eru tengsl og vinátta manna á milli. Þetta tengist atvinnugreinum og við reynum að fá til liðs við okkur fólk sem kemur sem víðast úr þjóðfélaginu. Hugmyndafræðin er að byggja brýr á milli manna og skoðana og ég sá þarna frábæra leið fyrir mig til að komast inn í góðan hóp sem opnaði jafnvel fyrir manni einhverjar dyr,“ segir Jón Karl sem fannst hann eftir árin fimm erlendis svolítið hafa misst tengslin við íslenskt atvinnulíf.
EINS OG AÐ MÆTA Í LÍTINN HÁSKÓLA EINU SINNI Í VIKU
Rótarý er frábær félagsskapur að sögn Jóns Karls. „Margir Rótarýfélagar hafa lýst þessu eins og þeir mæti í lítinn háskóla einu sinni í viku. Fundir eru almennt vikulega og byrja yfirleitt á hefðbundnum atriðum og spjalli góðra félaga og vina. Síðan koma fyrirlesarar þar sem farið er yfir einhver málefni líðandi stundar.
Þetta eru oft málefni sem við vitum ekki mikið um þannig að þetta er yfirleitt mjög fræðandi og gefandi. Við erum því iðulega að læra um hluti sem við ella hefðum ekki mikið verið að hugsa um. Þetta er því mjög fræðandi og uppbyggilegt. Eitt af meginverkefnum Rótarý eru síðan ýmis mannúðarverkefni, bæði hér heima og erlendis. Það er því allt sem mælir með því að vinna innan Rótarýhreyfingarinnar.“
YFIR 30 RÓTARÝ-KLÚBBAR UM ALLT LAND
Jón Karl mun gegna stöðu umdæmisstjóra Rótarý fram í júlí á þessu ári. „Þetta er gríðarlega skemmtilegt verkefni og ég er að vinna með frábæru fólki um allt land. Við erum með yfir 30 klúbba sem eru starfræktir víða um land og þar eru frábærir félagar að vinna einstakt starf á hverjum stað.“
Jón Karl hefur áhyggjur af minnkandi áhuga Íslendinga til að vinna sjálfboðastörf tengdum félagslegum verkefnum. Hann var formaður Fjölnis í Grafarvogi í um 15 ár og segir að það sé orðið flóknara og meiri áskorun en áður að fá Íslendinga til að vinna sjálfboðaliðastarf. Þetta á bæði við íþróttastarf, störf innan skóla og innan ýmissa mannúðarsamtaka eins og Kiwanis, Lions og Rótarý.
„Ég hvet alla til að kynna sér starfsemi Rótarý og við viljum gjarnan fá fleiri til liðs við okkur. Við sjáum það í mörgum hreyfingum að heldur er að hægjast á endurnýjun félaga. Það verður að efla umræðu um mikilvægi sjálfboðaliðastarf fyrir þjóðfélagið. Sjálfboðaliðar sjá um gríðarlega mörg verkefni sem erfitt er að sinna án þeirra.“
STYRKLEIKAR RÓTARÝ
„Rótarý er að hluta til gríðarlega stór mannúðarsamtök og er unnið að ýmsum mannúðarmálum. Það er verið að vinna að verkefnum í nærumhverfi og það er líka verið að styrkja ákveðin verkefni. Þekktust er eflaust barátta gegn lömunarveiki, eða Polio, en Rótarý hefur verið helsti stuðningsaðili þess verkefnis. Markmiðið er að útrýma lömunarveiki í heiminum. Mikill árangur hefur náðst en lokahnykkurinn er eftir.
Rotary International rekur gríðarlega stóran og öflugan sjóð sem kallast Rotary Foundation eða Rótarýsjóðurinn. Þetta er einn stærsti og öflugasti mannúðarsjóður í heimi og það eru mörg mikilvæg verkefni út um allan heim sem menn geta bæði stutt með því að leggja fram fjármagn og sjálfboðastarf. Það er því mjög stór hluti af starfi Rótarý sem tengist góðgerðarmálum og góðgerðarstarfi og allt er þetta unnið í sjálfboðastarfi.
Við hjónin fórum saman á heimsþing í Singapore á síðasta ári og þá sást betur hversu gríðarlega mikið starf er unnið um allan heim. Rotary International hefur til dæmis fjármagnað að mestu bólusetningu um þriggja milljarða barna í heiminum og er einn stærsti stuðningsaðili Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í baráttunni við að útrýma lömunarveiki í heiminum. Það er ótrúlega gefandi að læra meira um það gríðarlega starf sem unnið er á vegum Rótarý um allan heim.“
Hér hampar hann bikar fyrir nokkrum árum með Rótarý-félaga sínum, Hjálmari Jónssyni, presti
og fyrrum þingmanni.
ÍSLAND EITT STÆRSTA „RÓTARÝLAND“ Í HEIMI
Rótarýklúbbar á Íslandi eru 31 og og einn Rótaractklúbbur. Rótarýfélagar á Íslandi eru rúmlega 1100 og gerir það að sögn Jóns Karls Ísland líklega eitt stærsta „Rótarýland“ í heimi - á hvern íbúa. „Rótaractklúbbar eru hugsaðir fyrir yngri félaga og ættu sem flestir að kynna sér þá starfsemi sem þar fer fram.“ Jón Karl segir að margir klúbbarnir vinni margvísleg störf í sínu nærumhverfi og á það sérstaklega við klúbba utan höfuðborgarsvæðisins sem oft eru í góðu samstarfi við sín sveitar- og bæjarfélög.
„Flestir klúbbarnir eru á höfuðborgarsvæðinu en það er öflugt starf í öllum landshlutum. Það eru til dæmis klúbbar á Ísafirði, Akureyri, Sauðárkróki, Húsavík, Egilsstöðum, Selfossi og Akranesi og í Neskaupstað, Ólafsfirði, Vestmannaeyjum, Rangárþingi, Keflavík og Borgarnesi.“
FYRSTI NETKLÚBBURINN TEKINN TIL STARFA
Jón Karl nefnir að það séu að verða miklar breytingar innan Rótarý og meðal annars eru að byrja nýir klúbbar erlendis þar sem félagar hittast jafnvel ekki en tengjast fyrst og fremst í gegnum verkefni. Hér á landi er kominn e-klúbbur þar sem félagsmenn hittast aðeins á netinu og skiptir því staðsetning félagsmanna ekki máli. Þessir klúbbar eru einna hraðast vaxandi klúbbar víða um heim. Á Íslandi er auk þess starfandi International klúbbur þar sem fundarefni er á ensku.
„Það eru því til alls konar klúbbar og í ákveðnum tilfellum tengjast félagar í gegnum mismunandi áhugamál. Á heimsþinginu í fyrra frétti ég af klúbbi þar sem sameinast er um að drekka gin og annar um viskí. Ég reyndi að ganga í báða en fékk ekki inngöngu af einhverjum ástæðum. Það eru einnig tengingar í gegnum golf og akstur mótorhjóla innan Rótarý. Það er því alltaf hægt að finna sér klúbb í nærsamfélaginu og á netinu og svo er hægt að tengjast þessari starfsemi tengt áhugamálum um allan heim,“ segir Jón Karl Ólafsson.
Í seinni hluta viðtalsins sem við birtum á morgun ræðum við um árin í fluginu, formennskuna í Fjölni og hina erfiðu baráttu við krabbameinið sem hann greindist með árið 2021 – en í þeirri baráttu hjálpaði tónlistin honum mikið. Meira um það á morgun.