SAMANTEKT: GÍSLI KRISTJÁNSSON
Nafnið varð til við borð þjóðskálds uppi í Gufunesi löngu áður en brú yfir Grafarvog komst á dagskrá. Nafnið beið ónotað í 160 ár og hefur líkast til svifið um háloftin. Svo var ákveðið að festa það við nýja brú með vegi yfir sjálfan Grafarvoginn; Gullinbrú.
Sagan er svona: Þjóðskáldið Bjarni Thorarensen, skáld og dómari í landsyfirrétti, síðar amtmaður, bjó lengst af í Gufunesi á árunum 1816 til 1833. Í Gufnesi orti Bjarni sum kunnustu kvæði sín. Árið 1823 gerði hann sér það sér til dundurs og hugarléttis að yrkja kvæðið „Veturinn“.
HVER RÍÐUR YFIR GULLINBRÚVU?
Hann snaraði fram fjaðurpenna sínum og skrifaði hugfanginn: „Hver ríður svo geyst á gullinbrúvu….“
Þjóðskáldið Bjarni Thorarensen, skáld og dómari í landsyfirrétti, síðar amtmaður, bjó lengst af í
Gufunesi á árunum 1816 til 1833.
Góð sviðsmynd, hugsaði skáldið með sér og vissi ekki að miklar og pólitískar deilur hófust um nafnið réttum 160 árum síðar. Og fleiri orð sem skáldið skreytti list sína með og átti nú að koma í daglega notkun.
Þarna var komið nafnið á nýju brúna upp í Grafarvog þótt liðið væri langt á aðra öld frá veru skáldsins í Gufunesi. Af hverju ekki að fara yfir Gullinbrúvu í hið nýja hverfi?
En, nei það gengur ekki. Ungt fólk skilur ekki svona skáldamál. Er ekki Gullinbrú nóg? Og svo varð.
HUGMYNDIN FRÁ ÞÓRHALLI VILMUNDARSYNI PRÓFESSOR
Hugmyndina að þessari endurnýtingu á orðum skáldsins átti Þórhallur Vilmundarson prófessor. Hann varpaði þessu fram í tillögu til borgarstjórnar í vetrarbyrjun 1983. Og fyrr en varði tóku síður dagblaðanna að loga í illdeilum nafnið.
FJALLKONAN Í „ELDGAMLA ÍSAFOLD“
En Þórhallur gekk enn lengra. Hann lagði til að enn fleiri nöfn af blöðum Bjarna skálds Thorarensen yrðu endurvakin í nýju hverfi. Fjallkonan fríð í kvæðinu „Eldgamla Ísafold“ ljáði Fjallkonuvegi nafn sitt, nýrri safnbraut sem hvert Grafarvogsbarn þekkir.
Og ófáir leggja nú leið sína til Fjörgynjar – en það er hin eina rétt mynd orðsins í eignarfalli! Og svo er margar Foldir og fleira skemmtilegt og umdeilt.
Um eitt voru þó allir á einu máli í þessu nafnastríði og féllust að lokum í faðma: Þetta var harla nýstárlegt! Góð endurvinnsla að sækja nöfnin til skálds, sem bjó í Gufunesi, og orti um veturinn löngu áður en vetrarþjónusta og snjóruðningur á götum borgarinnar varð að deiluefni.
Þórhallur Vilmundarson prófessor var forstöðumaður Örnefnastofnunar frá stofnun hennar árið
1969 til 1998 og formaður örnefnanefndar. Hann átti sæti í nýyrðanefnd 1961-1964
og Íslenzkri málnefnd 1964-2001.
BRÉF ÞÓRHALLS TIL BORGARSTJÓRNAR
Við grípum hér niður í bréf Þórhalls Vilmundarsonar til borgarstjórnar haustið 1983. „Aðalvegurinn upp í Gufunes á að liggja um nýja brú á Grafaravogi og er lagt til að brúin og vegurinn verði nefnd Gullinbrú. Þvert á þann veg, norðan íbúðarhverfisins og sunnan kirkjugarðsins nýja, á að koma aðalbraut upp á Vesturlandsveg, og er stungið upp á að hann heiti Vetrarbraut, sbr. heiti fyrrnefnds kvæðis.
Götunöfn innan hins nýja íbúðarhverfis, austan Gullinbrúar og sunnan Vetrarbrautar, verði valin með hliðsjón af tveimur öðrum frægum kvæðum Bjarna: Eldgamla ísafold og Ísland (Þú nafnkunna landið). Meginvegurinn (safnbrautin) gegnum hverfið heiti Fjallkonuvegur, en síðari liðir annarra götunafna í hverfinu verði -fold (sbr. Eldgamla ísafold, ástkæra fósturmold, fjallkonan fríð). Fyrri liðir nafnanna verði valdir með hliðsjón af ljóðlínum Bjarna í Þú nafnkunna landið: Fjör kenni' oss eldurinn, frostið oss [herði, fjöll sýni torsóttum gæðum að ná.
UMHVERFIÐ MÓTAR MENNINA
En þessi hugsun, að umhverfið móti mennina, var mjög uppi á dögum Bjarna, og má rekja hana til franskra heimspekinga á 18. öld (Montesquieu). Átta íbúðargötur fái samkvæmt þessu nöfnin Funafold, Logafold, Hverafold, Reykjafold, Fannafold, Frostafold, Jöklafold og Fjallafold. Gatan, sem liggur við viðskipta- og menningarmiðstöð hverfisins, fái nafnið Fjörgyn með hliðsjón af þeirri hugsun í kvæði Bjarna, að baráttan við náttúruöflin auki mönnum fjör. Nafnið Fjörgyn „Jörð“ kemur fyrir í kvæði Bjarna, Vetrinum. Það er kvenkynsorð og beygist eins og hið kunna norska borgarnafn Björgvin eða Björgyn (eignarfall Fjögrynjar).
Sumir málfræðingar hafa talið nafnið samstofna no. fjör „líf“, og a.m.k. minnir nafnið Íslendinga á líf og fjör.
Reykjavík, 10. okt. 1983. Þórhallur Vilmundarson.
Frétt í laugardagsblaði Morgunblaðsins, 10. október 1983, um bréf Þórhalls til borgarstjórnar
um götuheiti í Grafarvogi.
Foldahverfið. (Frost og funi).
Grafarvogskirkja stendur við götuna Fjörgyn.